Fyrirmyndar jólabakstur

Já svona eftir giftingu og barnseign er maður orðinn svo svaklega fullorðinn og þroskaður að ég á varla til orð yfir það. Ég ákvað að taka að mér þessar glansmóður og fyrirmyndar eiginkonu og skella mér í jólabakstur. Eina sem mér datt í hug sem er jólalegt eru sörur, ekki það ég hef aldrei bakað þær né orðið vitni af bakstri á þeim. En ég power woman ræðst auðvitað á garðinn þar sem hann er mest illgresjaður svo ákvað að spreyta mér á þessu ( sérstaklega þar sem ég gerði heiðarlega tilraun að baka  sykurlausar, hveiti lausar og smjörlausar bláberjamuffins um daginn sem voru svo óætar að ég hefði frekar borða minnisbókina mína en að leggja í eina slíka múffu). En já fann uppskrift svo ákvað að eyða smá parti af sunnudeginum í þetta (endaði semsagt allur sunnudagurinn eins og hann lagði sig en það er önnur saga). Ég ofur þreytta, splæsta og taugaveiklaða mamma sem var að díla við það erfiða verkefni að þeyta eggjahvítur AKKÚRAT passlega mikið, alls ekki of lítið né of mikið og í millitíðinni að hlaupa eftir krakkanum sem var þá búinn að ýta á svo marga takka á þvottavélinn að það var komin mynd af rauðum lykili á henni og stóð 4;56 min ( jah er ekki gott að hafa barnaföt rúllandi í vatni og sápu í 5 klukkutíma á 60°í vél?!) Ok allt gott þvotturinn fékk bara súper langan og góðan þvott svo það var bara frábært, ég fékk mér rauðvín til að slaka smá á taugunum. Allt var tilbúið; deigið, kremið og alles og ekki nema 4 klukkutímar búnir.... þá koma að því að gera blessuðu kökurnar og fann ég þennan frábæra sprautupoka sem móðir mín hafði keypt (ætla að giska á í kínabúð) á spáni og ætlaði ég að gera mína fyrstu dásamlegu söru (var þara orðin rauð í kinnum því var alveg að springa úr stolti). Ég byrja að kreista pokan en puttinn stakkst í gegnum pokan og vel gerða og passlega þykka deigið mitt flaut yfir mig alla og út um allt náði ekki einu sinni að koma einni köku út því allt lak á hinn endan og út um gatið sem puttinn á mér gerði. Jæja annað rauðvínsglas..... Önnur tilraun og þetta skiptið með  skeið en held að í endanum það hafi nú bara litið meira pró  með skeiðinni, núna voru komnir 5 tímar og blessuð þvottavélin með vel hreina þvottinum búin en blessuð fötin voru ennþá svo pollblaut að þurrkarinn réði ekkert við þetta bara gaf frá sér skringileg stop hljóð svo annar klukkutími hvarf þar með smá hlaupa-pásum eftir barninu. Kom krakkanum fyrir framan sjónvarpið með hans uppáhalds teiknimynd, já því tek það fram að ársgamla barnið mitt á uppáhalds teiknimynd EN svona fullkomin lífræntræktuð móðir þá horfir barnið auðvitað BARA þegar við erum ekki að gera módaleir skúlptur, vatnslita málverk eða auðvitað baka múffur sem er alveg nánast daglegt brauð hér á bæ huh. Klukkan var orðin 8 um kvöld og kökurnar á leið í frysti áður en ég setti svo loka lúkkið á semsagt súkkulaðið, ég alveg að bugast með súkkulaði um allt andlit en samt ekki byrjuð að nota súkkulaðið alveg ótrúlegur andsk@** hvernig það gat skeð.. Annað rauðvínsglas og eitt tár lak þegar ég hugsaði hvað ég ætti að gera við alla blauta þottinn í vélinni þar sem ég var með pissublautan haug eftir barnið sem átti eftir að komast í vélina en það bara beið. klukkan 10 var allt klárt búin að dýfa kökunum í súkkulaði og þá var varla hreinn blettur á mer enda var sprautan farin og ég var bara að handpota þetta allt saman. Átti það til að gleyma mér og fara að klóra mér í kinnini og súkkulaði út um allt. Annað rauðvínsglas og smakk á nýbökuðum sörum, verð að viðurkenna gott var þetta en var þetta þess virði?!?! jah hver veit, ég náði góðu grenji (sem eftir óléttu og fæðingu er orðið talsvert algengara en áður) og var ég vel rauðvínslegin og sæl þegar ég fór að sofa! 

Ef fólk er alveg kreisí forvitið þá bara býð ég upp á smakk á morgun milli 10:35 og 11:20! Held samt ég geti bara gleymt þessu húsmæðra 'hlutverki' þar sem er komin ágætis sönnun að matargerð og greinilega eftir þessa raun bakstur er ekki sterkasti hæfileiki minn! 

Er farin að fá mér rauðvínsglas svo ég geti gleymt morgundeginum. 


Fæðingarhræðsla og ónáttúruleg fæðing!

Svo ég haldi nú áfram með fæðingarsögu og álit á öllu því sem tengist því það er svo fræðandi og skemmtileg (öll vitneskjan sem ég hef um þetta ferli er alveg top notch). 

Ég semsagt þjáist af margskonar hræðslu og  get ég nefnt hér fáein dæmi þá er ég t.d. svo bilaðaslega hrædd við köngulær að ég gæti ekki bjargað mér eða barni ef ég yrði fyrir dordingla árás, ég er hrædd við lítil rými, háa stiga og allt sem tengist hærra en meter, og jú spegla(spegla fobia ef það er til). En svo er hræðsla sem enginn virðist skilja og það er fæðingarhræðsla. Þetta finnst læknum vera eitthvað sem er voðalega barnalegt og hálf kjánalegt, maður fær svona viðbrögð; "Oh kjáninn þinn þetta er ekki neitt". Í stuttu máli er þetta bara hræðsla við að fæða. Ég semsagt útskýrði þessa hræðslu mínu við ljósmóðirina sem skildi ekki upp né niður í mér en hún sendi mig til fæðingarlæknis. Sú stúlka var sirka ári yngri en ég og þá fyrst leið mér eins og kjána í viðtalinu hjá henni en samtalið fór eitthvað á þennan veg; Ég sagði henni að ég vildi fara í keisara þar sem ég einfaldlega hef brjálaða hræðslu við að fæða, hún tekur í hendina á mér og segir elsku stúlkan mín þú sem er svona hraust og sterk stelpa þetta er ekkert mál. jah segi ég það er erfitt að segja til um það fyrir fæðingu, getum ekkert verið viss um að þetta verði geðveikt party bara 10 min og boob krakkinn poppar út geggjað hress á kantinum?! Fæðingarlækninum var ekkert skemmt og sagði að þetta fylgdi því bara við að verða óléttur og aftur kom ég með samlíkingar að þar sem við deilum heiminum er ekkert endilega sjálfgefið að ég vilji hýsa köngulær heima hjá mér(hún var ekki að skilja rökin en ok). Aftur kom hún mér skemmtilegastu rökin að ekkert er fallegra en að eiga NÁTTÚRULEGA.  Ég þakkaði fyrir að ég ældi ekki í skóinn á ungu snótar lækninum. Aftur segi ég já ok ég er hrædd við þetta og eftir 31 árs hræðslu er fátt sem gæti mögulega breyst á þessum 6 mánuðum sem væru eftir. Þetta samtal hélt svona áfram í 45 min, hún kallaði mig unga stúlku sirka 17 sinnum jafnvel þó ég sé korter í að vera komin úr barneign en ung stúlka skal ég vera og allt í lagi með það þá gafst ég upp og sagði jah og annað hvort verð ég skorin eða þið náið í barnið því ég ætla ekki að ýta þessu barni út hvað sem þú segir. Eftir 2 hittinga með fæðingarlæknum, einu viðtali hjá geðlækni þá varð ég greinilega úrskurðuð svo klikkuð að vilja ekki fæða að ég fékk keisara í gegn. Hef fengið alveg hellings spurningar og alveg fordóma við þessa ákvörðun mína að vilja skera allan líkaman minn (sem er reyndar bara 1 lítill skurður) bara vegna aumingjaskaps við að vera hrædd við að fæða. En eins og ég sagði við geðlæknirinn jah ef þú ert lofthrædd og þú veist að þú ert örugg á 15 hæð á svölum ferðu samt ekki út á þær þó það séu engin rök fyrir því, held með þessu var ég stimpluð snargeðveik og hleypt heim. 

1 barni síðar en engri fæðingu þar sem ég átti svo ónáttúrulega fæðingu með lyfjum og skurði og svo í þokkabót eftir allt  það þá er  ég ekki ennþá laus við þessa fobiu mína! 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband