Óður til fíkils
5.9.2025 | 15:57
Eftir að ég missti bróðir minn nú nýverið hef ég verið að hugleiða mikið um lífið og tilveruna. Bróðir minn dó mjög óvænt en samt var alltaf sá möguleiki síðan hann var barn að hann gæti dáið úr sínum "sjúkdóm".
Ég hef alltaf átt erfitt með þetta orð fíkniefna sjúkdómur því ef maður kryfjar það orð niður í litlar frumeindir sem við erum öll búin til úr þá finns mér það orð ekki passa. Þú getur verið með sjúkdóm sem þú þarft að taka lyf daglega til að halda niðri einkennum og eins getur þú líka verið með sjúkdóm sem þú færð tíma í meðferð og þú færð þín lyf og reynir að komast í gegnum það á öllum þínum krafti að sigrast á sjúkdóminum. Ef ég hugsa um sjúkdóma þá eru lyf og eitthvað sem lætur kvalirnar deyfast eða líða hjá.
Frá því að bróðir minn var lítill strákur var ljóst að hann átti við mikinn vanda í tengslum við fíkniefni, ég hef séð hann þjást í gegnum meir en hálfa sína æfi. Hann hefur barist og farið í gegnum meðferðir og verið á hnefanum í gegnum þær en eins og flestir vita þá eru engin lyf eða plástrar sem sett eru á þá einstaklinga sem eru fíklar. Það sem er ennþá ekki skilningur hjá stjórnvöldum og þeim sem virðast stjórna meðferðarstofnunum á íslandi er að þegar þessir einstaklingar þurfa/vilja hjálp þarf hún að vera til staðar. Þess vegna þoli ég ekki orðið sjúkdómur, þessir einstaklingar oftar en ekki þjást mjög mikið og þurfa þeir oftar en ekki að ná botninum til að þeir vilji fá viðeigandi hjálp. Hvað þá? Komdu eftir 5 vikur á fimmtudegi klukkan 13:00? er skilningurinn virkilega svona lítill að sjá að þetta dæmi gengur ekki upp!!! Þetta er ekki lyfja meðferð í nokkra tíma inn á spítala, þetta er mjög erfið ákvörðun að taka, þarf mikinn vilja styrk og vera tilbúinn að fara jafnvel í marga mánuði út úr samfélaginu og lífið sett á "hold". Það er svo sorglegt hvað við missum marga úr fíkn þegar sumir hverjir hafa viljað fá hjálp, ekki viljað vera á þeim stað sem þeir voru á og hefðu farið í sína meðferð ef hún hafði verið til staðar þegar og ef viðkomandi vildi þiggja hana.
Ég sjálf er ekki fíkill en hef ég lifað mikið í gegnum augun hans bróður míns heitins. Hann var svo hress, glaður og vildi öllum vel en hann réð ekki við sína fíkn og sá ég mikinn sársauka í augum hans gegnum árin þegar hann var að bugast með þennan sjúkdóm á bakinu. Þessi yndilegi strákur sem var mesti ljósageisli gæti verið þinn bróðir, þinn pabbi, sonur eða barnabarn og á meðan ekkert breytist missum við fleira gott fólk sem gæti verið bjargað. Það er sárara en tárum taki að hugsa til þess að bróðir minn sé farinn en ég vonast til að þetta opni augun á stjórnvöldum hvað lítið er gert fyrir þessa einstaklinga þegar neyðin er stærst og hversu nauðsinleg hjálpin er þegar þörfin knýr dyra.
Meginflokkur: Dægurmál | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Vinir og fjölskylda | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning