Litla undur og meistaraverkið mitt

Að horfa á barnið sitt og skynja að allt sé ekki eins og það á að vera er örugglega eitt það erfiðast sem ég hef gengið í gegnum um ævina. 

Áður fyrr lifði ég mjög frjálslegu lífi og að hluta til mjög ágyggjulausu lífi. Ég fluttist til Mílanó þar sem ég lærði tísku, vann í showroomi og við uppsettningu á tískusýningum,  ég stundaði alla helstu kokteilbari og diskótek um helgar. Ég valdi mér mjög yfirborðslegan og grunnhyggin lífstíl enda var ég bara rétt yfir 20 ára og vildi ég nýtt ævintýri daglega. Ég ferðaðist mikið og átti ég margar góðar stundir og á margar yndislegar minningar. 

Líf mitt breyttist til muna þegar ég kynntist kærastanum mínum því ég varð ólétt skömmu síðar og ég fann bara strax hvernig ég breyttist til hins betra. Ég róaðist öll og varð í miklu betra jafnvægi. Það var svo daginn sem að sonur minn fæddist þar sem hann lá á bringunni minni með fallegu brúnu augun sín þar sem hann starði út í heiminn. Aldrei hafði ég séð neitt yndislegra eða fegurra en þetta litla kríli sem hélt þéttings fast í puttan á mér og lífið mitt fór allt í einu að hafa annan tilgang. 

Þegar sonur minn hann Domenic náði 12 mánuðum fór ég fyrst að hugsa hvort hann væri eins og önnur börn?! Hann hummaði mikið, drakk óvenjulega mikið og baðiði út höndunum þegar hann varð spenntur.

Við bjuggum á þessum tíma í Slóvakíu og núna segi ég sem betur fer því ég fór og talaði við lækni sem var og er góð vinkona mín þegar strákurinn var orðinn 14 mánaða og bað ég hana að skoða þessa hegðun hjá honum. Hún skoðaði hann og benti mér góðlega á að þetta gæti verið "tikk" eins og ég vil kalla það, sem bentu til einhverfu. 

Þarna var litla ljósið mitt með stóru brúnu augun, sem starði á mig með tóm svipbrigði og reyndi að berjast við að segja orðið mamma, orðinn "Öðruvísi". Þarna átti ég mörg mjög erfið kvöld og erfiða daga og voru þau ófá tárin sem runnu niður, ekki var það ábætandi að Domenic hafði aldrei sofið heila nótt frá fæðingu, maðurinn minn vann 6 daga vikunnar og ég var einhvern veginn ein í ókunnu landi þar sem ég skyldi engann og var ég þarna alveg búin á því á líkama og sál.

Ég fór heim til Íslands stuttu eftir að hafa fengið þessar upplýsingar um son minn, hann var þá 17 mánaða og fór ég með hann beint í ungbarnaeftirlitið. Þar lýsti ég áhyggjum mínum  en mér var bara mætt með stóru brosi og fékk ég þau svör að ekkert væri að þessum litla hrausta og fullkomna dreng (ekki það að ég var aldrei með neinar áhyggjur að hann væri ekki fullkominn, ég var bara að velta fyrir mér með einhverfuna svo þessi svör komu mér virkilega á óvart)! Þegar ég  kem út frá lækninum er ég  týndari en nokkurn tíman fyrr þar sem læknirinn upplýsti mig um að þetta væri líklegast bara í kollinum á mér en á þessum tímapunkti fór ég að lesa mér til um sjálf hvað í veröldinni gæti verið að hrjá litla strákinn minn. 

Þetta var bara byrjunin á löngu og erfiðu ferðalagi sem ég hef gengið í gegnum síðustu 2 árin með son minn sem ég ætla að skrifa um hér. Bæði vil ég skrifa þetta niður fyrir mig svo ég náið aðeins að pústa út og einnig vonast ég til að ef einhverjir eru í sömu stöðu og ég að þetta gæti mögulega komið þeim til hjálpar. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband