Einhverfa eða ekki einhverfa..

Það er eitthvað innra með okkur þegar kemur að börnunum okkar og maður skynjar jú ef ekki allt er með felldu. Strákurinn minn er sá allra blíðasti og er hann sá allra rólegasti og ef honum  t.d. langar í eitthvað kemur hann til mín, grípur um hendina mína, horfir á mig og segir mamma koddu koddu koddu koddu.Hann er svakalega varkár og passasamur í öllu sem hann gerir. En hann á aftur á móti daga eða stundir það sem er ekki hægt að gera honum til geðs, ef hann er búinn að fókusa á eitthvað eitt eins og að fara út er bara ekkert sem mun stoppa hann. Þá einmitt getur hann grýtt alls konar hlutum, skemmir dótið sitt og slær mann svo fátt sé nefnt. 

Eftir að við komum heim frá Kína fór ég beint með hann í þroskamat og nema hvað þá stóðst hann það alveg með "flying colors". Hann taldi upp á 20 fyrir hjúkkuna á ensku, nefndi öll form alveg frá " octagon - rectangle" og auðvitað er hann með alla liti á hreinu. Hann er einstaklega vel gefinn strákur, er forvitinn um allt og vill vita hvað allt heitir og snertir til að finna áferðina. Hjúkkan vildi meina að ekkert væri að þroska hans svo hann gæti ekki verið einhverfur.  Þá fékk ég mat frá örðum lækni sem sagði hann vera svo: "fallegur og klár strákur" svo ég noti nú hans eigin orð og að það væri bara alls ekkert að honum. Nú var það samt svo að hann Domenic var ennþá ekki búinn að sofa heila nótt síðan hann fæddist og svaraði ekki nafninu sínu eða hlýddi neinu svo læknirinn pantaði heyrnapróf. 

Ég geti mér fulla grein fyrir að í dag eru alveg greiningar fyrir allt og eru að mínu mati jafnvel kastað fram greiningum hér og þar en einhverfa er ekki eitthvað sem er hægt að hundsa. Ef ég hefði ekki barist fyrir barninu mínu, og eytt nánast öllum mínum tíma í að kenna honum þá væru mestar líkur að hann mundi ekki segja orð í dag. Í febrúar fór ég til 3 lækna og var sá síðasti sem hlustaði á mig enda brast ég í grát á miðju gólfin hjá honum og sagði að það getur ekki verið að það sé bara Ok að barni mitt sofi lítið sem ekkert, skynji ekki hættur og tjáir sig ekki um ef eitthvað er ekki í lagi. Ekki bara fyrir hann en ég fengi aldrei pásu þar sem hann væri alltaf í hættu svo hann skrifaði tilvísun til þroska og hegðunar miðstöðvarinnar. Loksins fann ég létti að eitthvað væri gert fyrir strákinn minn og hann fengi þá hjálp sem hann þarf á að halda. Ég í minni einfeldni gerði ég mér ekki grein fyrir hvernig ástandið var hér á þessu sviði því það er alls ekkert auðvelt að fá tíma fyrir börn. Ég beið frá febrúar til júlí en þá fékk ég fyrsta tímann og því fyrstu staðfestingu um að strákurinn minn væri einhverfur. Eftir alla þessa baráttu var þetta samt sjokk! Bara að heyra orðin frá lækni sem vinnur við að greina börn er þetta alltaf ákveðið sjokk fyrir foreldri en ég var svo tilbúin að taka þennan slag enda búin að berjast í tæp 2 ár fyrir að eitthvað væri gert. En Það þurfa að koma staðfestingar frá fleiri en einum lækni því sálfræðingur þarf að meta hverskonar röskun þetta er hjá mínum strák og það var ekki laus tími hjá honum fyrr en í september. 

Ég get ekki lýst þeirri tilfingu að fá staðfestingu um að eitthvað sé "að" barninu þínu, vil ekki nota orðið eitthvað að því þetta fyrir mér er bara einskonar frávik sem þarf að vinna með, svo er EKKERT gert í 3 heila mánuði. Þetta hafa verið svo langir 3 mánuður þar sem ég veit hann er einhverfur en mér finnst ég svo hjálparlaus því ennþá veit ég ekki nákvæmlega hvað er að svo það er mjög erfitt fyrir mig að lesa mér meira til um þetta efni en ég hef gert. Einnig skil ég ekki svona vinnubrögð því að vera foreldri sem finnur vanmátt og hjálparleysi er auðvitað alveg hræðileg tilfinning því maður vill auðvitað allt gera fyrir börnin sín og hjálpa þeim sértstaklega ef ekki allt sé eins og á að vera. 

Núna er sem betur fer bara vika í skoðun númer 2 og ætla ég að skrifa um ferlið því ef einhver á börn sem eru með svipuð einkenni eða fólk í sömu stöðu og við höfum verið en veit ekki hvert skal snúa sér í þessum málum þá vona ég að mín skrif og reynsla gefi smá innsýn í þetta ferli. 


Bloggfærslur 9. september 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband